KAFLI I: FÉLAGIÐ, MARKMIÐ OG FÉLAGSFÓLK
1. grein
Nafn félagsins er Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Á alþjóðavettvangi er heimilt að nota nafnið Trans Iceland.
2. grein
Markmið félagsins er að:
- Skapa trans fólki og fjölskyldum þeirra menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þeirra, samkennd og samstöðu um sérkenni sín.
- Vinna að laga- og réttarbótum á málefnum trans fólks á Íslandi. Stuðla að auknum skilningi á málefnum trans fólks, þ.m.t. trans kvenna, trans karla, kynsegin fólks og allra þeirra sem eru á einhvern hátt trans.
- Auka fræðslu til fagfólks svo sem geðteyma og lækna og vera þeim innan handar í því að aðstoða fólk sem er í þessu ferli eða hafa lokið því.
- Eiga samstarf við sambærileg samtök, hópa og áhugafólk hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum.
- Efla mannréttindi og minna á að allar mannlegar verur eru fæddar frjálsar og jafnar að göfgi og réttindum og að sérhver mannleg vera á kröfu til að njóta mannréttinda án nokkurrar aðgreiningar svo sem vegna kynþáttar, húðlitar, kynferðis, kynvitundar, kynhneigðar, kyneinkenna, kyntjáningar, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna þar á meðal félagslega og þjóðernislega, eigna, fæðingar eða vegna annarrar stöðu.
- Vera í virkum samskiptum við tengd félög.
3. grein
Aðild að félaginu er opin öllum þeim sem eru á einhvern hátt trans; eru forráðamenn eða aðstandendur trans fólks; og stuðningsfólki trans fólks. Allt félagsfólk sem hefur greitt félagsgjöld fyrir árlegan aðalfund er kjörgengt til stjórnar og hefur atkvæðarétt.
4. grein
Félagsgjöld skulu vera greidd á almanaksári hverju af félagsfólki. Upphæð er samþykkt á árlegum aðalfundi í hvert sinn og tekur gildi á næsta almanaksári.
KAFLI II: FUNDIR
5. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Hann skal halda í febrúar eða mars ár hvert og skal til hans boðað skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hefur allt félagsfólk sem hefur greitt félagsgjöld fyrir yfirstandandi almanaksár.
Dagskrá aðalfundar skal vera á þessa leið:
- Fundur settur.
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Lögmæti aðalfundar staðfest.
- Skýrsla stjórnar.
- Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
- Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og ársreikninga.
- Lagabreytingar.
- Kosning forseta.
- Kosning fjögurra stjórnarmeðlima.
- Kosning eins skoðunaraðila reikninga.
- Samþykkt félagsgjalds.
- Önnur mál.
6. grein
Stefnt skal að því að halda félagslega viðburði mánaðarlega en félagsfólki er frjálst að skipuleggja félagslega viðburði í nafni félagsins að gefnu samþykki, með eða án aðstoðar stjórnar. Stjórn skal þó tryggja að á hverju kjörtímabili séu haldnir minnst 6 félagslegir viðburðir. Óski þriðjungur félagsfólks skriflega eftir félagsfundi skal hann boðaður af stjórn.
KAFLI III: STJÓRN
7. grein
Stjórnin fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Stjórnin skal vinna að því að koma stefnumálum félagsins á framfæri eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni.
8. grein
Ef einhver stjórnarmeðlima víkur úr stjórn á kjörtímabili skal stjórnin skipa staðgengil úr röðum félagsfólks. Ef fleiri en einn stjórnarmeðlimur víkur úr stjórn, skal stjórn boða til félagsfundar svo fljótt sem auðið er og leggja nafn nýs stjórnarmeðlims undir samþykki fundarins.
9. grein
Kjörtímabil er skilgreint á milli árlegra aðalfunda.
10. grein
Stjórnarmeðlimir, sem og annað félagsfólk, eru bundin trúnaði um málefni félagsfólks og þeirra sem leita til félagsins. Félagatal er trúnaðarmál og má ekki afhenda öðrum en kjörnu stjórnarfólki. Trúnaðarskylda fellur ekki úr gildi jafnvel þótt stjórnarmeðlimir hafi látið af störfum eða félagsfólk gengið úr félaginu.
11. grein
Stjórnin skipar nefndir eftir þörfum.
12. grein
Verði einn eða fleiri stjórnarmeðlima vísir um að einhver stjórnarmeðlimur hafi gerst brotlegur samkvæmt lögum félagsins má bera upp vantrauststillögu gagnvart viðkomandi. Sé vantrauststillagan samþykkt af meirihluta stjórnar á stjórnarfundi skal viðkomandi tafarlaust vikið úr stjórn.
13. grein
Stjórn skal, auk forseta, vera skipuð varaforseta, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Kjörnir stjórnarmeðlimir skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi. Ef ekki næst að kjósa fjóra stjórnarmeðlimi mega þeir meðlimir sem ná kjöri skipta stöðunum á milli sín enda séu a.m.k. þrír meðlimir í stjórn að meðtöldum forseta.
KAFLI IV: ÖNNUR ÁKVÆÐI
14. grein
Breytingar á lögum eða stefnuskrá félagsins má aðeins gera á aðalfundi. Tillögur þess efnis frá félagsfólki skulu berast stjórn minnst tveimur dögum fyrir aðalfund. Tillaga öðlast gildi ef 2/3 hlutar fundarmanna samþykkja hana.
15. grein
Ekki má leggja félagið niður ef þrír meðlimir eða fleiri vilja halda því áfram. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess og skjöl afhent Samtökunum ‘78 til varðveislu, enda séu þær afhentar aftur félagi sem síðar kann að vera stofnað í sama tilgangi og Trans Ísland.
Lög samþykkt á aðalfundi Trans Ísland, félags trans fólks á Íslandi, 28. febrúar 2024. Með þessum lögum falla eldri lög úr gildi.