Kynrænt sjálfræði

Gagnlegar upplýsingar um frumvarpið og afleiðingar þess
Frumvarpið á vef Alþingis

Á síðastliðnum áratug hafa orðið miklar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks. Drög um lög kynrænt sjálfræði taka sérstaklega á réttindum trans fólks og intersex fólks. Þar er m.a. Lagt til að aðgengi fólks að kynskrárbreytingu sé elft og að einstaklingar þurfi ekki lengur að fá greiningu á svokölluðum kynáttunarvanda og leyfi teymis innan Landspítala til þess að breyta nafni og kyni sínu í Þjóðskrá. Í stað verður því svo til haga að einstaklingar geti breytt nafni og kyni í Þjóðskrá af eigin frumkvæði, og hljóti þar með fullan sjálfsskilgreiningarétt. Slíkt er í takt við lagabreytingar víðsvegar um heim en þegar eru í gildi sambærileg lög, m.a. í Argentínu, Möltu, Danmörku, Noregi og Írlandi.

Þrátt fyrir að slíkar breytingar hafi ekki ollið neinum vandamálum þar sem þau hafa verið í gildi í talsverðan tíma þá hefur ákveðinn hópur sett sig upp á móti þessum breytingum, en þau telja að þessar lagabreytingar stangist á við réttindi og öryggi sís kvenna. Í þessu skjali verða þessar helstu áhyggjur skoðaðar í samræmi við rannsóknir, reynslu og raunverulega stöðu þessara mála.

Áhyggjur hafa verið uppi um hvort að aukið aðgengi að kynskrárbreytingum geti ógnað öryggi kvenna í kvennaathvörfum eða skýlum. Þær áhyggjur byggjast á með nýjum breytingum á lögum þurfi einstaklingar ekki lengur að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð né neina læknisfræðilega meðferð til þess að breyta um kynskráningu, sem gæti orðið til þess að trans konur sem hafa ekki undirgengist hormónameðferð og kynleiðréttingaraðgerð geti nýtt sér þá þjónustu sem kvennaathvörf hafa upp á að bjóða. Slíkt er talið geta valdið óþægindum eða ótta meðal sís kvenna þar sem trans konur séu „líffræðilega karlkyns“, þá sérstaklega meðal sís kvenna sem hafa orðið fyrir grófu ofbeldi af hálfu karlmanna.

Núgildandi lög um réttindi trans fólks kveða á um að ef fólk breytir kynskráningu sinni þá njóti þau allra þeirra sömu réttinda sem skráð kyn hefur í för með sér. Sömuleiðis kveða lögin á um að einstaklingar þurfi ekki að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð til að breyta um lagalegt kyn, enda kunni að vera allskyns ástæður fyrir því að viðkomandi undirgengst ekki slíka aðgerð, t.d. heilsufarsástæður, aldur, viðkomandi treystir sér ekki í aðgerð, aðgerðir sem eru í boði séu ekki fullnægjandi (sérstaklega í tilfellum trans karla eða karlsegin trans fólks) eða að viðkomandi vill einfaldlega ekki undirgangast slíka aðgerð. Slíkt er í samræmi við önnur lög víðsvegar um heim. Það þýðir því að trans konur hafa nú þegar aðgengi að kvenna athvörfum án þess þó að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð og hafa þær nýtt sér slíka þjónustu í mörg árabil án vandkvæða.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það er ómögulegt að vita hvaða kynfæri konur hafa sem nýta sér þjónustu kvennaathvarfa eða skýla, og óviðeigandi og niðrandi að forvitnast til um slíkt. Áhyggjur um að útlit trans kvenna eitt og sér geti valdið ótta og óþægindum sís kvenna sem nýta sér þessa þjónustu vegna þess að það geti verið svo „karlmannlegt“ er ekki nægileg rök til þess að neita trans konum aðgengi að slíkri þjónustu, enda útlit og túlkun okkar á útliti byggð út frá okkar eigin gildismati. Margar trans konur eru ekki sjáanlega trans, og þær sem eru sjáanlega trans verða fyrir auknu ofbeldi og áreiti vegna útlits síns. Að finnast útlit sumra trans kvenna óþæginlegt er því oftar en ekki byggt á fordómum og neikvæðu gildismati í garð trans kvenna.

Að setja samasem merki á milli þess að viðkomandi sé með typpi og að viðkomandi sé möguleg ofbeldismanneskja er hættuleg alhæfing sem er ekki á rökum reist. Að skrímslavæða líkama trans kvenna og setja þá undir sama hatt og líkama karla byggir á miklum misskilningi og vanþekkingu á lífi og reynslu trans kvenna. Langstærstur hluti trans kvenna undirgengst hormónameðferðir af einhverju tagi og kjósa margar að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð.

Ef svo vildi til að útlit trans konu olli einhverjum óþægindum er mikilvægt að skoðað sé hvað það sé sem er að valda slíkum óþægindum, og gengið í skugga um að slíkt sé ekki af sökum fordóma eða skilningsleysis varðandi kynvitund trans kvenna. Mikilvægt er að viðkomandi trans konu sé ekki gert að yfirgefa athvarfið og hennar öryggi þar með stofnað í hættu, heldur sé unnið að lausnum sem gerir öllum kleift að halda áfram að nýta þjónustu sem þær þurfa á að halda. Þær trans konur sem eru að nýta sér þessa þjónustu er að gera slíkt vegna þess að þær eru líka þolendur heimilis- og/eða kynferðisofbeldis. Lausnir sem stuðla að öryggi allra kvenna þarf að vera í fyrirrúmi og eiga fordómafullar skoðanir einstaklinga í garð trans kvenna ekki að vera ástæða til þess að útskúfa trans konum frá þjónustu.

Trans fólk verður í stórum mæli fyrir heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi samkvæmt nýlegum rannsóknum. Stonewall Trans Report (2017) sýndi fram á að allt að 28% trans fólks hefur upplifað heimilisofbeldi. Rannsókn á vegum The Scottish Trans Alliance í Skotlandi sýndi fram á að allt að 45% trans fólks hafa upplifað heimilisofbeldi og 47% hafa upplifað kynferðisofbeldi. Rannsókn the National Center for Transgender Equality (2015) í Bandaríkjunum sýnir fram á svipaðar tölur, en 47% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvertímann á lífsleiðinni. Rannsóknir um stöðu trans fólks á Íslandi eru af skornum skammti, en miðað við rannsóknir á nágrannalöndum okkar er hægt að gefa sér það að trans fólk verður fyrir heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi í auknum mæli. Það er því mikilvægt að aðgengi þeirra að þjónustu sé tryggð.

Þessi mál hafa verið til mikillar umræðu í Bretlandi, en Stonewall UK gerði greinargóða skýrslu þar sem rætt var við þjónustuaðila víðsvegar um Bretland. Sú rannsókn sýndi fram á að trans konur hafa verið að nýta sér slíka þjónustu til lengri tíma og hafa þjónustaðilar einnig verið að bæta aðgengi trans kvenna að þeirri þjónustu. Þjónustuaðilar benda á að þeirra þjónusta sé alltaf einstaklingsmiðuð og sögðu að sambærilegar fyrirhugaðar lagabreytingar í Bretlandi myndu ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem þau veita.

Áhyggjur eru yfir því að trans konur sem hafi ekki undirgengist kynleiðréttingaraðgerð nýti sér sundklefa kvenna, sem geti valdið óþægindum og jafnvel ótta meðal kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karlmanna.

Slíkar áhyggjur lýsa að miklu leyti vanþekkingu á aðstæðum og sambandi trans kvenna og trans fólks almennt við sundstaði og líkamsrækt, en langstærstur hluti trans fólks nýtir sér ekki slíka aðstöðu af ótta við fordóma, áreiti og útskúfun — sér í lagi það trans fólk sem hefur ekki undirgengist einhverskonar kynleiðréttingaraðgerð. Trans fólk er mjög meðvitað um að núverandi kynjaskipting á sundstöðum og búningsklefum er að miklu leyti byggð út frá kynfærum og öðru útliti, sem veldur kvíða meðal trans fólks og verður til þess að þau eru mun ólíklegri til þess að nýta sér slíka þjónustu. Það trans fólk sem nýtir sér þjónustu lætur oftast lítið fyrir sér fara til þess að forðast áreiti.

Samkvæmt lögum hefur trans fólk hinsvegar nú þegar rétt til þess að nýta sér aðstöðu í samræmi við lagalega skráð kyn, en margir sundstaðir hafa nú byrjað að bjóða upp á sér einkaklefa fyrir trans fólk sem vill nýta sér hana. Flestir sundstaðir Reykjavíkurborgar bjóða upp á slíka aðstöðu, og var unnið að því í samstarfi við Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi. Einnig má nefna að margir sundstaðir eru farnir að bjóða upp á meira næði í sundklefum þar sem aðgengi er að lokuðum klefum innan kynjaðra klefa og sömuleiðis sturtuhengis í sturtuaðstöðu.

Sömuleiðis er vert að nefna að trans fólk hefur í einhverjum mæli verið að nýta sér sundaðstöðu eða líkamsrækt og er alls ekki allt trans fólk sem forðast slíkt. Örsjaldan hafa komið upp vandamál og hafa vandamálin oftar en ekki snúist um misskilning eða fordóma sundgesta gagnvart útliti eða kyntjáningu trans fólks frekar en að trans fólk sé að áreita eða bera líkama sína á torg.

Með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði er mikilvægt að aukin sé fræðsla til fagaðila og þjónustuaðila um fjölbreytileika kyns. Slíks er þörf til að þjónustuaðilar geti öðlast þekkingu til þess að geta tekist á við ágreiningsmál á fagmannlegan hátt. Mikilvægt er að tryggja aðgengi trans fólks af þjónustu sem þau þurfa á að halda, og má þar sérstaklega nefna aðgengi trans kvenna að kvennaathvörfum. Þær trans konur sem leita sér þjónustu þangað eru þolendur ofbeldis og er mikilvægt að þeim sé ekki útskúfað af sökum fordóma eða vegna þess að þeirra kynvitund sé ekki virt.

Mikilvægt er samt að ekki sé gert lítið úr þeim áhyggjum sem fólk kann að hafa. Þjónustaðilar þurfa að geta tekist á við ágreiningsmál ef þau komi upp sem tryggja áframhaldi aðgengi allra kvenna að þjónustu, og sömuleiðis öryggi þeirra sem nýta sér þjónustuna. Ef koma upp mál þar sem fólk telur að öryggi þeirra sé ógnað af á einhvern hátt af ökunnugum aðila sem nýtir sér þjónustuna er mikilvægt að það sé til staðar ferli sem tekur á slíkum ágreiningi og vinnur að lausnum sem henta báðum aðilum. Ástæður sem byggjast á neikvæði gildismati í garð trans fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks eða fólks sem tilheyra minnihlutahópum ætti aldrei að vera liðið né notuð sem ástæða til að útskúfa fólkið sem tilheyrir minnihlutahópunum

Einnig þarf að vera til staðar öryggisráðstafanir ef svo ólíklega vildi til þess að karlmaður sem er gerandi ætlar að þykjast vera kona til að fá aðgengi að kvennaathvarfi þar sem þolandi hans hefur leitað. Þrátt fyrir að slíkt sé langsótt og hefur ekki komið upp áður er mikilvægt að þjónustuaðilar geti tekist á við slíkt. Sömuleiðis er mikilvægt að þjónustuaðilar geti tekist á við mál þolenda sem voru beittar ofbeldi af annari konu, og að öryggi hennar sé tryggt, t.d. með því að tryggja að gerandinn hennar geti ekki fengið aðgang að athvarfinu. Í báðum tilfellum er hægt að hafa til staðar upplýsingar um gerendur viðkomandi og það sé gengið í skugga um að þau séu ekki að fá aðgengi að þjónustunni á röngum forsendum. Slík ferli er hægt að setja á fót með aðstoð hinsegin samtaka á borð við Samtökin ‘78 og Trans Íslands ef þau eru ekki nú þegar til staðar hjá þjónustuaðilum.

Mikilvægt er að stuðla að lausnum í ágreiningsmálum sem kunna að koma upp, en á sama tíma er mikilvægt að geta komið auga á hvenær fordóma eða áróður er um að ræða. Fordómar gagnvart trans fólki og öðrum minnihlutahópum hafi færst í aukana og hafa myndast hópar fólks sem að beita sér gagngert gegn réttindum trans fólks. Þessir hópar nýta sér hræðsluáróður í sínum málflutningi og byggja mál sitt ekki á staðreyndum, rannsóknum eða reynslu.

Það getur verið erfitt að átta sig á því hvort um áróður eða raunverulegart áhyggjur er að ræða. Hræðsluáróður getur oft dulbúið sig vel og má þar sérstaklega nefna samtök og hópa í Bretlandi og Bandaríkjunum, en þar hafa risið mjög háværir og óvægnir hópar sem berjast gegn réttindum trans fólks undir formerkjum femínisma. Þessir hópar hafa oftar nær engan áhuga á neinum lausnum eða að vinna að skilningi og fræðslu. Ef rýnt er vel í málflutning þeirra má oftar en ekki sjá að þau bera enga virðingu fyrir kynvitund trans fólks og boða þau úrelt viðhorf, og reyna að mála trans fólk sem ofbeldisfólk, öfugugga, barnaníðinga og fólk sem er haldið geðsjúkdóm.

Það hlýtur að gefa auga leið að femínismi og kvenréttindi þurfa að ná til allra kvenna. Femínískar hreyfingar hafa svo sannarlega þurft að taka á allskyns ágreiningi í gegnum tíðina meðal hópa innan sinna raða og munu halda áfram að gera slíkt um ókomna tíð. En það er mikilvægt að unnið sé gegn ágreiningi á lausnamiðaðan hátt. Hrein og bein útskúfun hópa kvenna eða minnihlutahópa er aldrei svarið við ágreiningi. Sú nálgun aðskilur þá hópa sem vilja raunverulega berjast fyrir jafnrétti og þeirra sem hafa misst sjónar af heildarmyndinni af sökum fordóma og gildismats sem stuðlar að jaðarsetningu og kúgun annara hópa.