Ársskýrsla Trans-Ísland 2014-2015

 Árið sem er að líða er búið að vera atburðaríkt og margt búið að gerast á árinu hjá Trans-Ísland að venju. Haldið hefur verið í þá hefð að halda fundi fyrsta miðvikudags hvers mánaðar og hefur það gengið eftir allt árið. Húsnæðisbreytingar hjá Samtökunum 78 hafa hinsvegar valdið erfileikum í að finna fundarstað mánuð hvern og hefur síðari hluti ársins verið á mismunandi stöðum, t.a.m. kaffihúsum, í heimahúsum eða á opinberum stöðum.

Ef litið er yfir þá viðburði sem Trans-Ísland hefur haldið á árininu hafa þeir verið margbreytilegir. Miðvikudagsfundirnir hafa spannað vítt svið. Haldinn var fatamarkaður, haldnir voru hugmyndafundir um hvað væri hægt að gera til að lífga upp á starfsemina, kaffihúsahittingar, grill á Klambratúni sem heppnaðist einstaklinga vel og voru um 50-60 manns sem létu sjá sig, Litlu-Jól og fleiri almennir fundir. Einnig fengum við heimsókn frá fræðikonunni Raewynn Connell sem var stödd hérlendis til að halda erindi á ráðstefnu í karlafræðum í Háskóla Íslands. Connell er trans kona og hefur verið ein af frumkvöðlum innan kynjafræði í heiminum. Fundurinn var skemmtilegur og mynduðust fjörugar umræður.

Minningardagur trans fólks var haldinn hátíðlegur að venju og var hann haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur að þessu sinni. Dagur B. Eggertsson var þar gestgjafi og átti erindi ásamt formanni Trans-Ísland. Freyja Dögg sagði einnig sína reynslusögu, Davíð Alexander meðstjórnandi sagði sögu og spilaði ljúfa tóna við minningarathöfnina og Örn Danival var með ljóðalestur. Minningarstundin var einstaklinga hugljúf og var vel mætt á viðburðinn. Eftir á voru svo veitingar í boði Reykjavíkurborgar. Þetta var í annað sinn sem að minningardagur trans fólks var haldinn með slíku sniði og vonumst við til að geta haldið þeirri hefð áfram.

Trans-Ísland vann náið með Samtökunum 78 og öðrum félögum á árinu og tóku þátt í ýmsum viðburðum. Trans-Ísland náði ekki að skipa formlegan fulltrúa í trúnaðarráð Samtakanna 78, en Anna Margrét Grétarsdóttir var kosin inn í trúnaðarráð í gegnum kosningu og var því óbeint fulltrúi okkar þar. Formaður Trans-Ísland tók þátt í skrifum við allskyns fréttatilkynningar með Samtökunum 78 og skrifaði meðal annars umsögn um frumvarp varðandi mannanöfn á Íslandi. Einnig voru fleiri bréf send til fjölmiðla til að leiðrétta orðalag líkt og kemur upp á hvejru ári.

Trans-Ísland fékk bréf frá Velferðarráðuneyti þar sem óskað var eftir tilnefningum í nefnd um málefni hinsegin fólks. Nefnd um málefni hinsegin fólks hóf störf í apríl á síðasta ári og er enn við störf. Hlutverk hennar er að koma með tillögur að endurskoðun og úrbótum þegar kemur að lagalegri stöðu hinsegin fólks á Ísland. Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir var þar skipuð sem aðalmaður og Örn Danival Kristjánsson sem varamaður. Eitt af forgangsatriðum nefndarinnar er að skoða núverandi lög er snúa að trans fólki og eru nefndarmenn bjartsýn á að framfarir muni nást með starfi þessarar nefndar. Sýn nefndarfólks er að útvíkka núverandi lög þannig að þau nái til alls trans fólks, þar á meðal þeirra sem skilgreina sig utan tvíhyggjukynjakerfisins, endurskoða sjúkdómsgreiningu og sérfræðiteymi á Landspítalanum svo fátt sé nefnt.

Ný heimasíða fór í loftið og hefur verið unnið að bæta efni inn á hana og nota hana í meira mæli. Allar grunn upplýsingar eru að finna inn á henni hvert er hægt að leita og hafa einstaklingar haft samband eftir að hafa fundið upplýsingar þar. Samt sem áður þarf hugsanlega að tileinka einhverjum einstaklingi í stjórn það hlutverk að taka hana í gegn og uppfæra mikið af efni og setja nýtt efni inn.

Rétt fyrir aðalfund bárust Trans-Ísland þær fréttir að Bifhjólafélag Lýðveldisins – Sniglar hafi ákveðið að styrkja félagið upp á 200.000 kr.

Mæting á miðvikudagsfundi hefur stundum verið dræm og þarf því að endurskoða hvað gæti orðið til þess að fleiri myndu taka þátt. Trans-Ísland heldur samt sem áður áfram að gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að stuðningsneti fyrir annað trans fólk og eru reglulega nýjir einstaklingar sem leita ráðgjafar hjá okkur hvað varðar trans málefni. Það er sýn formanns að Trans-Ísland geti fært starfsemi sína á víðara svið og hugsanlega í náinni framtíð að kannað verði með fjármagn fyrir starfsmann og að farið verði í einhverskonar herferðir eða fræðslustarfsemi í mun meira magni en gert hefur verið. En slíkt verður að koma í ljós í framtíðinni. Formaður vill að lokum þakka fyrir árið og óskar nýrri stjórn góðs gengis.

Leave a Reply