Framboð til stjórnar 2016-2017 eru eftirfarandi. Vakin er athygli á því að eingöngu er kosið um einn meðstjórnanda.
Formaður: Alexander Björn Gunnarsson
Varaformaður: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir
Gjaldkeri: Steina Dögg Vigfúsdóttir
Ritari: Alda Villiljós
Meðstjórnandi: Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir og Svanhvít Ada (Sif Hel) Björnsdóttir.
Framboðslýsingar.
Alexander Björn Gunnarsson – framboð til formanns
Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er 27 ára og er jarðfræðingur að mennt. Ég er milli starfa eins og er en vinn sjálfboðavinnu fyrir Samtökin ´78 og Trans Ísland. Ég hef áhuga á jafnréttismálum og hagsmunabaráttu. Svo hef ég líka brennandi áhuga á líkamsrækt og bjór.
Reynsla af félagsstarfi. Ég kom inn í stjórn Trans Ísland sem stjórnarmeðlimur á miðju starfsárinu þegar fyrrverandi stjórnarmeðlimur hætti. Þá tók ég líka sæti í Trúnaðarráði Samtakanna ´78 fyrir hönd Trans Ísland.
Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Ég vil fá tækifæri til að beita mér áfram fyrir hagsmunum trans fólks. Það eru spennandi verkefni framundan, til að mynda gerð fræðslubæklings og landsþing sem er á döfinni í Nóvember, og ég vil endilega fá tækifæri til að vinna að þessum verkefnum. Félagið hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár og ég vil vera hluti af því að halda þeim drifkrafti áfram.
Hverjar eru þínar helstu áherslur? Auka fræðslu til opinberra stofnanna, sérstaklega í heilbrigðisstéttinni. Auka fræðslu í skólum landsins. Markvissari stuðningur fyrir trans fólk og aðstandendur þeirra.
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Það væri mér heiður og ánægja að fá að sinna starfi formanns í stjórn Trans Ísland á komandi starfsári.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir – framboð til varaformanns
Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er 25 ára kynsegin femínisti, hvít, ófötluð og stútfull af frekari forréttindum. Ég er meistaranemi í kynjafræði við Háskóla Íslands og starfa nú í fjáröflun hjá Stígamótum. Ég hef mikinn áhuga á söng, söngleikjum, tölvuleikjum og spunaspilum og hlutverkaspilum. Ég stunda jóga, skrifa og elska lélega raunveruleikaþætti á borð við Real Housewives og Survivor.
Reynsla af félagsstarfi. Hef starfað opinberlega í félagsstarfi frá árinu 2009. Var ein af stofnendum Hinsegin Norðurlands og sat þar í stjórn frá 2010-2011. Hef sitið í stjórn Trans Íslands frá árinu 2011 og er ein af talsmanneskjum trans fólks á Íslandi í dag. Hef komið fram í flestum miðlum landsins, þar á meðal útvarpi, sjónvarpi, vefmiðlum og hef skrifað mikið af greinum um trans málefni. Einnig sat ég í stjórn Q-félagsins frá 2011-2015. Ég hef starfað sem fræðslustýra fyrir Samtökin ’78 og var þar frá árinu 2012-2015, og hef einnig sitið í stjórn Samtakanna ’78 árið 2012 og var nýlega kosin inn á aðalfundi þeirra sem meðstjórnandi 5. mars síðastliðinn. Einnig hef ég starfað töluvert erlendis og sit í stjórn IGLYO (International Gay, Lesbian, Bisexual, Transgender, Queer and Intersex Youth Organization) og hef komið fram víða erlendis í viðtölum og tekið þátt í allskyns verkefnum er snúa að hinsegin málefnum.
Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Ég vil halda áfram að starfa í þágu félagsins og vera í forsvari fyrir trans fólk hérlendis. Það eru mörg spennandi verkefni sem kostur er á að fylgja eftir á næsta ári, svo sem útgáfa fræðslubæklings, vinna að frumvarpi og landsþing um réttindi trans fólks og tel ég mig hafa mikið fram á að færa í þeim verkefnum sem eru framundan.
Hverjar eru þínar helstu áherslur? Auka fræðslu og sýnileika trans fólks, stuðla að frekari lagabreytingum, koma til móts við þarfir trans fólks, koma á fót virkum stuðningshópum og vekja athygli á málefnum kynsegin og frjálsgerva trans fólks.
Annað sem þú vilt koma á framfæri? Ekki að svo stöddu. Takk fyrir mig!
Steina Dögg Vigfúsdóttir – framboð til gjaldkera
Steina Dögg heiti ég og er 27 ára. Ég stunda nám við Háskóla Íslands í tölvunarfræðideild en hef einnig flugmannsmenntun á bakinu.
Ég var gjaldkeri félagsins stjórnarárið 2014-15 og fjárhagurinn hefur aldrei verið betri. Það er þó ekki síst að þakka góðu samstarfi við aðra í stjórn. Ég er einnig fráfarandi gjaldkeri í stjórn Samtakanna ’78, en mun nú koma til með að eiga meiri tíma til að vinna nær grasrótinni þar sem ég gaf ekki kost á mér þar fyrir næsta ár.
Ég vil leggja áherslu á fjölbreytileikann sem trans regnhlífin inniheldur, en á sama tíma koma til móts við ýmsar ólíkar þarfir þessara hópa. Hvernig það verður nákvæmlega verður gert hef ég bara óljósar hugmyndir um, en það mun líklega að stórum parti fela í sér meira samtal við félagana sjálfa. Að endingu vil ég bara segja: Áfram allskonar!
Alda Villiljós – framboð til ritara
Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er fætt 1988 og uppalið í Reykjavík. Eftir stúdentspróf frá MH og eitt ár í ensku við Háskóla Íslands flutti ég til London til að læra ljósmyndun. Eftir námið bjó ég stuttlega í Stokkhólmi áður en ég flutti aftur til Íslands vegna veikinda árið 2014. Það var í London sem ég byrjaði að nota ókynbundin fornöfn á ensku, en ég hafði vitað það frá því í menntaskóla að kynvitund mín passaði ekki inn í tvískipt kynjakerfið. Í Stokkhólmi var fornafnið ‘hen’ komið í almenna notkun og kynvitund mín var almennt virt, en þegar ég sá fram á að flytja aftur til Íslands fór ég virkilega að hafa áhyggjur af því að hafa engin orð til að lýsa minni upplifun. Ég birti grein á knúz.is um fornafnið hán haustið 2013 og á svipuðum tíma opnaði ég hóp á facebook fyrir kynsegin íslendinga, en ég fann fyrir mjög mikilli þörf fyrir tengsla- og stuðningsnet við fólk sem upplifði sig á svipaðan hátt og ég.
Í dag vinn ég sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og listskapari. Ég bý eitt með einum ketti eins og er en stefni á að stofna hinsegin katta-kommúnu í sumar!
Reynsla af félagsstarfi. Á síðasta ári hef ég setið í trúnaðarráði Samtakanna ’78 og verið meðlimur í jafningjafræðslunni. Ég vann mikla vinnu við að koma Hýryrðum, nýyrðasamkeppni fyrir hinsegin orð, í gang, en sú keppni var haldin í fyrsta sinn síðasta haust og gekk vonum framar. Ég tók einnig þátt í viðburðinum Nú skal hinsegja, sem var off-venue viðburður á Reykjavík Pride síðasta haust, en þar var ég með tvo fyrirlestra; einn um trans og kynsegin og annan um rasisma og menningarnám. Í tengslum við Pride var ég einnig í sjálfboðastarfi við að keyra út tímarit hinsegin daga og var með ljósmyndir á sýningu Press Photos í Ráðhúsi Reykjavíkur sem sýndu hinsegin fólk sem fellur ekki inní samfélagsleg norm. Ég er einn af skipuleggjendum Wotever Iceland, sem er mánaðarlegur viðburður byggður á Wotever viðburðum sem hafa verið haldnir í London og Stokkhólmi. Markmiðið er að byggja upp samfélag fyrir hinsegin fólk sem finnur sig ekki endilega í „mainstream“ hinsegin menningu og að vera með öruggt pláss fyrir fólk að hittast og vera það sjálft.
Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Kynsegin Ísland formlega tekið inn sem aðildafélag Trans Íslands á síðasta ári og almennt hef ég upplifað ótrúlega mikinn stuðning og kærleik við okkur sem upplifum okkur utan kynjatvíhyggjunnar. Þó má alltaf gera betur og mér finnst það mjög mikilvægt að kynsegin samfélagið sé með rödd innan stjórnarinnar sem hefur þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Á meðal hæfileika sem ég tel að myndu nýtast mér í þessu starfi eru til dæmis gott vald á bæði íslensku og ensku, reynsla í sjónrænum listum sem myndi til dæmis gera mér auðvelt fyrir að sjá um og skoða yfir grafíska hönnun og mikil þekking á jafnréttisbaráttu minnihlutahópa innan hinsegin samfélagsins. Ég kem vel fyrir mig orði, bæði í rituðu og töluðu máli, og get miðlað upplýsingum skýrt á samfélagsmiðlum og póstlistum.
Hverjar eru þínar helstu áherslur? Ég vil að fræðsla sé sett í fyrirrúm, en hingað til skilst mér að hún hafi að mestu farið fram sem hluti af jafningjafræðslu Samtakanna. Ég veit af eigin reynslu að það eru ekki allir jafningjafræðarar með trans eða kynsegin málefni á hreinu og ég hef sjálft orðið vitni að mistökum hjá fræðurum varðandi okkar mál. Ég myndi vilja koma upp sérstakri trans-miðaðri fræðslu sem væri hægt að fara með í skóla og í fyrirtæki, hvort sem það yrði í samvinnu við jafningjafræðsluna eða ekki. Þar að auki myndi ég vilja efla prentað fræðsluefni, í formi bæklinga, plakata, efni á netinu o.s.frv. Myndbandið sem var unnið að síðastliðið haust var frábært skref, en viðbrögðin sýndu líka að það er ennþá mjög mikið skilningsleysi varðandi trans málefni í samfélaginu og mér fannst það sýna það svart á hvítu hvað fræðsla er ótrúlega nauðsynlegur þáttur í mannréttindabaráttunni.
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Ég reyni alltaf að kynna mér sem flestar hliðar á málunum og er með þann frábæra hæfileika að geta skipt um skoðun og jafnvel viðurkennt að ég hafi haft rangt fyrir mér. Það er samt bara 151 *alvöru* Pokémon.
Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir – framboð til meðstjórnanda
Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég heiti Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir og verð 26 ára núna í apríl. Ég starfa sem forritari hjá Azazo. Ég er enn að vinna í að klára nám í Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, stefnan er að útskrifast fyrir þrítugt.
Ég hef mjög gaman af flest öllu skapandi; teikna, skrifa, lesa. Ég er að vinna að því að þróa tölvuleik, sem er áframhald af lokaverkefni mínu í tölvunarfræðinni. Það geri ég í mínum eigin frítíma, þegar ég hef einhvern frítíma.
Reynsla af félagsstarfi? Ég hef verið að sjálfboðast eitthvað í kringum Samtökin ’78 og Trans Ísland, annars hef ég ekki mikið verið í skipulögðu félagsstarfi, en það breytist vonandi núna fljótlega!
Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Mig langar til þess að koma meira að því hvað félagið ákveður að gera og leggja mitt af mörkum til að hafa það frábært.
Hverjar eru þínar helstu áherslur? Að hafa hlutina fræðandi en samt ekki gleyma kjánalátunum.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? Ég er ógeðslega kúl og skemmtileg.
Svanhvít Ada (Sif Hel) Björnsdóttir – framboð til meðstjórnanda
Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er fædd 1979 sem gerir mig 37 ára á þessu ári. Ég hef bakgrunn í myndlist, grafík og tölvunarfræði og hef unnið við allt þrennt á mismunandi tímum á ævinni minni. Eins og er sinni ég störfum sem Technical Artists hjá CCP Games og hef unnið þar í nær áratug. Áhugasvið mín eru á öllum stöðum en þau helstu eru myndlist(teikna/mála), skrif(ljóð og sögur á ensku) og svo ýmislegt tengt tækni og forritun. Þess á meðal hef ég áhuga á ýmsu öðru eins og tölvuleikjum, borðspilum, Warhammer, líffræði, skautum, hjólaskautum og margt fleira. Í raun er ég þannig að ef einhver selur mér inn á áhugamál þá tek ég þátt í því og reyni að hafa gaman af. Ef ég hefði aðeins fleiri tíma í sólarhringnum þá væri ég eflaust með margfalt fleiri áhugamál.
Reynsla af félagsstarfi. Reynsla mín er á víð og dreifð þar sem ég hef snert á mörgu í gegnum árin. Ég var í ritstjóranefnd Háskólablaðs Háskólans í Reykjavík seinasta árið mitt þar og var ég einnig í stjórn nemendaráðs Japönsku nema á sínum tíma. Einnig hef ég mikla reynslu af að vinna í Scrum umhverfi(https://en.wikipedia.org/wiki/Scrum_(software_development)) og tel það geta hjálpað á öðrum sviðum en bara hugbúnaðarhönnun.
Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Þó mér finnist að Trans Ísland hafi gert frábæra hluti í gegnum tíðina þá finnst mér eins og það sé alltaf hægt að gera betur og ég vona þess að með mína þekkingu á fjölbreyttum sviðum að ég gæti hjálpað félaginu enn meira með fullri þátttöku minni. Einnig langar mig að hjálpa félaginu að byggja betri og sterkari ímynd gagnvart þjóðfélaginu.
Hverjar eru þínar helstu áherslur? Mínar helstu áherslur yrðu að sjá hvort ekki væri hægt að bæta upp á samfélagsnet hópsins. Mig langar t.d. að sjá hvort við getum ekki gert fleiri hluti saman eins og íþróttir, bíóferðir og fleira. Hlutir sem geta hjálpað okkur að mynda tengsl milli okkar sem mannvera óháð skilgreiningum sem samfélagið setur á okkur. Finnst nefnilega að við getum orðið sterkari ef við þekkjum hvort annað betur og stundum alls konar hluti í sameiningu. Við erum fjölbreyttur hópur sem hefur upp á margt að bjóða en eigum oft erfitt með að kynnast hvort öðru. Þetta er eitthvað sem ég vil bæta. Mér finnst einnig vanta góðann og haldbærann gagnagrunn(eins og FAQ t.d.) fyrir meðlimi til að lesa og nýta sér. Hef tekið eftir því að fólk fer oft í gegnum ferlið einungis með orð lækna að hendi og vita stundum ekki hvað það eigi að taka til bragðs ef hlutirnir eru öðruvísi en ætlast. Þetta er eitthvað sem gaman væri að bæta úr og byggja upp. Einnig vil ég hjálpa félaginu að halda áfram því æðislega starfi sem það hefur unnið í gegnum í tíðina og gefa félaginu tækifæri á að nýta þá reynslu sem ég hef að geyma.
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Textinn að ofan hljómaði rosalega „official” og ég get lofað ykkur að ég er ekki þannig in person. Finnst gaman að kynnast fólki og sjá hvað fær það til að tifa og vakna á hverjum degi.