Stjórn Trans Íslands gagnrýnir harðlega þá ákvörðun Útlendingastofnunar að synja bandarískri trans konu og syni hennar um alþjóðlega vernd og vísa þeim aftur til Bandaríkjanna. Mæðginin komu til landsins fyrir rúmri viku vegna síversnandi stöðu trans fólks vestanhafs vegna þeirrar aðfarar sem verið hefur gegn réttindum þess, en líkt og Trans Ísland og Samtökin ’78 hafa margoft bent á hefur trans fólk, frá embættistöku Trumps í janúar síðastliðnum, þurft að þola vægast sagt grófar ofsóknir stjórnvalda. Bandaríkjastjórn hefur kerfisbundið grafið undan áunnum réttindum trans fólks eins og fjölmörg dæmi sýna og samtök á borð við Human Rights Watch hafa fjallað um. Ferðafrelsi bandarísks trans fólks hefur verið afnumið þökk sé nýjum reglum um vegabréf og landamæraeftirlit á sama tíma og þrengt hefur verið að réttindum þess innanlands.
Utanríkisráðuneytið gaf nýlega út ferðaleiðbeiningar fyrir hinsegin fólk vegna þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað. Utanríkisráðherra hefur sömuleiðis opinberlega tjáð sig um bakslagið á heimsvísu og mikilvægi þess að Ísland noti rödd sína til að standa vörð um mannréttindi. Það skýtur því skökku við að íslensk stjórnvöld, í gegnum Útlendingastofnun, skuli með þessum hætti neita að horfast í augu við þann veruleika sem trans fólk býr nú við í Bandaríkjunum. Umsókn konunnar um alþjóðlega vernd var metin „bersýnilega tilhæfulaus“ þrátt fyrir rökstuðning og gögn sem sýndu fram á annað. Til að bæta gráu ofan á svart var henni svo vísað á bandaríska sendiráðið þegar hún var svipt þjónustu eftir að neikvæð niðurstaða fékkst í máli hennar. Þessi framkvæmd er raunverulega óskiljanleg og óforsvaranleg þegar um einstakling er að ræða sem tilheyrir hópi sem á undir álíka högg að sækja af hálfu bandaríska ríkisins og trans fólk. Ákvörðuninni um brottvísun fylgir einnig endurkomubann hér á landi og í öðrum Schengen-ríkjum til minnst tveggja ára, og hafa íslensk stjórnvöld með því takmarkað enn frekar möguleika hennar á því að yfirgefa það óörugga ástand sem hún hefur þurft að þola og henni mun mæta vestanhafs.
Líkt og bent hefur verið á er löngu orðið ljóst að Bandaríkin eiga ekki heima á lista yfir örugg upprunaríki þegar um er að ræða einstaklinga sem búa við jaðarsetningu, á borð við trans fólk. Við hvetjum dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að tekið verði á móti trans fólki á flótta, hvaðan sem það kemur. Núverandi listi yfir „örugg“ ríki nær einfaldlega ekki utan um raunveruleika trans fólks. Ef Ísland vill halda áfram að standa vörð um gildi mannréttinda og jafnréttis í því alvarlega bakslagi sem við horfum upp á á alþjóðavísu þá dugir ekki að stinga hausnum í sandinn.
Þessi yfirlýsing er birt í tengslum við mál bandarískrar trans konu sem synjað var um alþjóðlega vernd á Íslandi og var fjallað um í Heimildinni.