Yfirlýsing vegna BDSM-Ísland

By 24. mars, 2016apríl 26th, 2019Fréttir

Yfirlýsing frá nýkjörinni stjórn Trans Íslands er varðar orðræðu í tengslum við aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78

Stjórn Trans Íslantransislandlogod vill byrja á að koma á framfæri að þessi yfirlýsing er ekki yfirlýsing um hvort félagið styðji aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78 eður ei. Slíkt er ekki hlutverk félagsins né stjórnar Trans Íslands að ákveða, heldur hlutverk félagsfólks í Samtökunum ‘78 og aðalfunds þess.

Trans Ísland fordæmir hinsvegar þá orðræðu sem hefur verið ríkjandi um málið. Orðræðan hefur að mörgu leyti verið útilokandi fyrir marga hópa undir hinsegin regnhlífinni og hefur slíkt komið fram í orðræðu einstaklinga opinberlega sem tala meðal annars um að aðild BDSM á Íslandi hafi verið mikil afturför fyrir homma og lesbíur á Íslandi. Mikið af umræðunni hefur því snúið að hommum og lesbíum og hafa Samtökin ‘78 ítrekað verið nefnd sem félag homma og lesbía á Íslandi. Trans Ísland fordæmir þetta orðaval þar sem að saga Samtakanna ‘78 er mun flóknari og víðfeðmari en svo. Árið 1993 byrjuðu fyrstu umræður um að opna Samtökin ‘78 fyrir tvíkynhneigðum og úr því mynduðust mikil átök innan samtakanna sem lauk í raun ekki fyrr en árið 2007 þegar að tvíkynhneigt fólk var að lokum formlega tekið inn í Samtökin ‘78. Árin þar á undan hafði verið rætt um aðild trans fólks að Samtökunum ‘78 með miklum átökum um hvort trans fólk ætti heima í Samtökunum ‘78 þar sem málefni trans fólks væru af öðrum meiði og snéru að kynvitund en ekki kynhneigð. Þrátt fyrir alla kergju og ágreining varð það svo að Samtökin ‘78 urðu formlega félag hinsegin fólks á Íslandi árið 2007 og tóku formlega inn tvíkynhneigða og trans fólk. Síðan þá hafa fleiri hópar formlega verið teknir undir væng Samtakanna ‘78 og má þar nefna pankynhneigt, eikynhneigt og intersex fólk.

Samtökin ‘78 hafa því frá árinu 2007 starfað formlega sem regnhlífarsamtök hinsegin fólks á Íslandi og hafa staðið vörð um réttindi allra þeirra hópa sem falla þar undir í samstarfi við samtök á borð við Trans Ísland, Q – félag hinsegin stúdenta, Styrmi, Hinsegin kórinn, Hinsegin daga, Intersex Ísland og fleiri. Sömuleiðis hafa verið miklar breytingar á umræðu og hugmyndafræði innan trans samfélagsins og gerðist Kynsegin Ísland formlega partur af Trans Íslandi árið 2015. Okkur þykir miður að sjá fólk einblína á Samtökin ‘78 eingöngu sem samtök homma og lesbía á Íslandi og biðlum til fólks að kynna sér málin betur og vanda sig í umræðunni. Saga hinsegin samfélagsins er full af útilokun og þöggun á hinum ýmsu hópum og fordæmum við að fólk viðhaldi slíku með orðræðu sinni.

Sömuleiðis höfum við heyrt raddir fólks sem telja að hommar og lesbíur eigi að stofna sín eigin samtök burtséð frá Samtökunum ‘78. Stjórn Trans Íslands telur slíkt vera mikla afturför í réttindabaráttu hinsegin fólks sem hefur frá upphafi verið samrýmd hinum ýmsu hópum. Ef horft er til ársins 1969 þegar að Stonewall uppþotin áttu sér stað er ljóst að þar áttu aðild hinir ýmsu hinsegin hópar, svo sem trans fólk, tvíkynhneigðir, hommar, lesbíur, BDSM-hneigðir og margir aðrir hópar sem voru útilokaðir frá samfélaginu vegna sinnar kynvitundar, kyntjáningar, kyngervis, kynhneigðar, kynhegðunar, kyneinkenna og annarra þátta er snerta kynverund fólks. Við erum mikið sterkari saman og samvinna okkar getur fært fjöll. Þetta hefur sýnt sig í  því mikla og mikilvæga starfi sem Samtökin ‘78 hafa sinnt í hátt í fjóra áratugi, enda hefur sú vinna  borið í för með sér miklar viðhorfsbreytingar, félagslegar breytingar og ekki síst lagalegar umbætur í málefnum hinsegin fólks. Við viljum því biðla til fólks að gleyma ekki þeirri miklu og framúrskarandi baráttu sem Samtökin ‘78 hafa háð í áranna rás í samstarfi við hina ýmsu hópa undir hinsegin regnhlífinni. Hvað svo sem líður aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78 og skoðunum okkar á því þá er mikilvægt að við gleymum ekki samtakamætti okkar og samstöðunni sem hefur komið okkur svo langt. Við erum sterkari saman heldur en sundruð og telur stjórn Trans Íslands að við þurfum að vanda umræðuna, koma fram við hvort annað af virðingu og passa að við útilokum ekki hvort annað með orðum eða gjörðum okkar.

Að lokum viljum við þakka Samtökunum ‘78 fyrir það frábæra starf sem þau hafa unnið og við hlökkum til að halda áfram að vinna með þeim að bættri stöðu alls hinsegin fólks á Íslandi, af öllum stærðum og gerðum.

Virðingarfyllst,
Stjórn Trans Íslands,
Alexander Björn Gunnarson, formaður (hann – he)
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, varaformaður og fjölmiðlafulltrúi (hún – they)
Steina Dögg Vigfúsdóttir, gjaldkeri (hún – she)
Alda Villiljós, ritari (hán – they)
Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir, meðstjórnandi (hún – she)

Reykjavík, 24. mars 2016.