Trans (transgender) er griðarlega stórt regnhlífarhugtak sem að nær yfir fjöldann allan af hópum sem eiga það sameiginlegt að þeirra kynvitund, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Þar undir falla meðal annars flokkar á borð við transsexual, genderqueer, genderfluid, non-binary, bigender, þriðja kynið o.s.frv. og er listinn alls ekki tæmandi.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að upplifun einstaklinga er mismunandi og er engin algild skilgreining eða upplifun rétt eða röng. Ekki allt trans fólk leitar sér heilbrigðisþjónustu og það trans fólk sem gerir það fer mismunandi leiðir og undirgengst jafnframt ekki endilega kynfæraaðgerð þrátt fyrir að undirgangast hormónameðferð.

Eitt af því mikilvægasta er rétt orðanotkun, en talað er um trans fólk, trans konur, trans karla og kynleiðréttingu eða kynfæraaðgerðir. Trans konur eru einstaklingar sem var úthlutað karlkyni við fæðingu en eru konur og trans karlar einstaklingar sem fengu kvenkyn úthlutað við fæðingu en eru karlar.

Það er gríðarlega mikilvægt að tala um trans fólk samkvæmt þeirra kynvitund og nota þau fornöfn sem að þau nota burtséð frá hvernig einstaklingur lítur út eða hvaða persónulegu skoðun þú hefur. Sumt trans fólk kýs einnig að nota kynlaus fornöfn á borð við „hán.“ Ef það er óljóst hvaða fornafn skal nota, endilega spurðu viðkomandi hvaða fornafn þau vilji nota.

Frekari upplýsingar varðandi transgender hugtakið er hægt að finna hér.

Einnig er hægt að nálgast stuttan fræðslubækling á íslensku hér.