Áhyggjur hafa verið uppi um hvort að aukið aðgengi að kynskrárbreytingum geti ógnað öryggi kvenna í kvennaathvörfum eða skýlum. Þær áhyggjur byggjast á með nýjum breytingum á lögum þurfi einstaklingar ekki lengur að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð né neina læknisfræðilega meðferð til þess að breyta um kynskráningu, sem gæti orðið til þess að trans konur sem hafa ekki undirgengist hormónameðferð og kynleiðréttingaraðgerð geti nýtt sér þá þjónustu sem kvennaathvörf hafa upp á að bjóða. Slíkt er talið geta valdið óþægindum eða ótta meðal sís kvenna þar sem trans konur séu „líffræðilega karlkyns“, þá sérstaklega meðal sís kvenna sem hafa orðið fyrir grófu ofbeldi af hálfu karlmanna.
Núgildandi lög um réttindi trans fólks kveða á um að ef fólk breytir kynskráningu sinni þá njóti þau allra þeirra sömu réttinda sem skráð kyn hefur í för með sér. Sömuleiðis kveða lögin á um að einstaklingar þurfi ekki að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð til að breyta um lagalegt kyn, enda kunni að vera allskyns ástæður fyrir því að viðkomandi undirgengst ekki slíka aðgerð, t.d. heilsufarsástæður, aldur, viðkomandi treystir sér ekki í aðgerð, aðgerðir sem eru í boði séu ekki fullnægjandi (sérstaklega í tilfellum trans karla eða karlsegin trans fólks) eða að viðkomandi vill einfaldlega ekki undirgangast slíka aðgerð. Slíkt er í samræmi við önnur lög víðsvegar um heim. Það þýðir því að trans konur hafa nú þegar aðgengi að kvenna athvörfum án þess þó að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð og hafa þær nýtt sér slíka þjónustu í mörg árabil án vandkvæða.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það er ómögulegt að vita hvaða kynfæri konur hafa sem nýta sér þjónustu kvennaathvarfa eða skýla, og óviðeigandi og niðrandi að forvitnast til um slíkt. Áhyggjur um að útlit trans kvenna eitt og sér geti valdið ótta og óþægindum sís kvenna sem nýta sér þessa þjónustu vegna þess að það geti verið svo „karlmannlegt“ er ekki nægileg rök til þess að neita trans konum aðgengi að slíkri þjónustu, enda útlit og túlkun okkar á útliti byggð út frá okkar eigin gildismati. Margar trans konur eru ekki sjáanlega trans, og þær sem eru sjáanlega trans verða fyrir auknu ofbeldi og áreiti vegna útlits síns. Að finnast útlit sumra trans kvenna óþæginlegt er því oftar en ekki byggt á fordómum og neikvæðu gildismati í garð trans kvenna.
Að setja samasem merki á milli þess að viðkomandi sé með typpi og að viðkomandi sé möguleg ofbeldismanneskja er hættuleg alhæfing sem er ekki á rökum reist. Að skrímslavæða líkama trans kvenna og setja þá undir sama hatt og líkama karla byggir á miklum misskilningi og vanþekkingu á lífi og reynslu trans kvenna. Langstærstur hluti trans kvenna undirgengst hormónameðferðir af einhverju tagi og kjósa margar að undirgangast kynleiðréttingaraðgerð.
Ef svo vildi til að útlit trans konu olli einhverjum óþægindum er mikilvægt að skoðað sé hvað það sé sem er að valda slíkum óþægindum, og gengið í skugga um að slíkt sé ekki af sökum fordóma eða skilningsleysis varðandi kynvitund trans kvenna. Mikilvægt er að viðkomandi trans konu sé ekki gert að yfirgefa athvarfið og hennar öryggi þar með stofnað í hættu, heldur sé unnið að lausnum sem gerir öllum kleift að halda áfram að nýta þjónustu sem þær þurfa á að halda. Þær trans konur sem eru að nýta sér þessa þjónustu er að gera slíkt vegna þess að þær eru líka þolendur heimilis- og/eða kynferðisofbeldis. Lausnir sem stuðla að öryggi allra kvenna þarf að vera í fyrirrúmi og eiga fordómafullar skoðanir einstaklinga í garð trans kvenna ekki að vera ástæða til þess að útskúfa trans konum frá þjónustu.
Trans fólk verður í stórum mæli fyrir heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi samkvæmt nýlegum rannsóknum. Stonewall Trans Report (2017) sýndi fram á að allt að 28% trans fólks hefur upplifað heimilisofbeldi. Rannsókn á vegum The Scottish Trans Alliance í Skotlandi sýndi fram á að allt að 45% trans fólks hafa upplifað heimilisofbeldi og 47% hafa upplifað kynferðisofbeldi. Rannsókn the National Center for Transgender Equality (2015) í Bandaríkjunum sýnir fram á svipaðar tölur, en 47% svarenda höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvertímann á lífsleiðinni. Rannsóknir um stöðu trans fólks á Íslandi eru af skornum skammti, en miðað við rannsóknir á nágrannalöndum okkar er hægt að gefa sér það að trans fólk verður fyrir heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi í auknum mæli. Það er því mikilvægt að aðgengi þeirra að þjónustu sé tryggð.
Þessi mál hafa verið til mikillar umræðu í Bretlandi, en Stonewall UK gerði greinargóða skýrslu þar sem rætt var við þjónustuaðila víðsvegar um Bretland. Sú rannsókn sýndi fram á að trans konur hafa verið að nýta sér slíka þjónustu til lengri tíma og hafa þjónustaðilar einnig verið að bæta aðgengi trans kvenna að þeirri þjónustu. Þjónustuaðilar benda á að þeirra þjónusta sé alltaf einstaklingsmiðuð og sögðu að sambærilegar fyrirhugaðar lagabreytingar í Bretlandi myndu ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem þau veita.