Fréttatilkynning vegna kynsegindagsins

By 19. apríl, 2016apríl 26th, 2019Fréttir

villiljos.com
Kynsegindagurinn verður haldinn í annað sinn þann 20. apríl nk. Dagurinn er haldinn í anda konudagsins og bóndadagsins, en kynsegin fólk skilgreinir sig almennt utan þessara tveggja flokka og getur því oftast ekki tekið þátt í þeim dögum. Auk þess að hvetja fólk til að fagna kynsegin manneskjum í sínu lífi, t.d. með blómum, gjöfum eða almennt með fallegum orðum og/eða gjörðum, ætlar Kynsegin Ísland, í samstarfi við Trans Ísland, Wotever Iceland og Samtökin ’78 að halda upp á daginn með opinni fræðslu.

Fræðslan verður haldin í húsnæði Samtakanna ’78 að Suðurgötu 3, en hún verður á léttu nótunum og það verður opið fyrir hvers kyns spurningar eftir stutta kynningu á því hvað kynsegin er og hvað það þýðir að vera kynsegin. Við viljum hvetja sem flest til að koma á kynninguna og til að sækja sér fræðslu um hvað það er að vera kynsegin (e. genderqueer eða non-binary), t.d. í gegnum Kynsegin Ísland (facebook.com/nonbinaryiceland) eða Trans Ísland (transisland.is).

Húsið opnar klukkan 18 en fræðslan byrjar 18:30. Húsnæðið er aðgengilegt fyrir hjólastóla.