Yfirlýsing stjórnar vegna Eurovision 2026

By 8. desember, 2025Fréttir

Stjórn Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi, hvetur stjórn Ríkisútvarpsins ohf. til að hafna þátttöku í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2026.

Eurovision hefur lengi verið einn helsti gleðigjafi margs hinsegin fólks og ákveðinn hápunktur hvers árs. Á síðari árum hefur Ísrael þó markvisst beitt keppninni til að hvítþvo ímynd sína á alþjóðavísu og misnotað kosningakerfið í þeim tilgangi að skapa þá ímynd að almenningur í Evrópu standi með Ísrael.

Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu í febrúar 2022 tók einungis nokkra daga að vísa Rússlandi úr Eurovision, eftir að nokkrar sjónvarpsstöðvar innan EBU gerðu kröfu um það, þeirra á meðal RÚV. Þó vó eflaust þungt að finnska ríkissjónvarpið, Yle, lýsti því yfir að það tæki ekki þátt í keppninni ef Rússland yrði með. Nú, þriðja árið í röð, hefur EBU ákveðið að Ísrael skuli fá að taka þátt þrátt fyrir að hafa framið þjóðarmorð í beinni útsendingu allan þann tíma.

Sjónvarpsstöðvar í Hollandi, Spáni, Írlandi og Slóveníu hafa þegar dregið sig úr keppninni á næsta ári. Það er okkar eindregna ósk að RÚV feti í fótspor þeirra og dragi sig úr keppni þar til Ísrael verður vikið burt. Samkvæmt skoðanakönnunum er það vilji meirihluta þjóðarinnar að svo verði og að okkar mati er það því það eina rétta í stöðunni. Eurovision er ekkert án þátttökuríkjanna og sniðganga er eina leiðin til að knýja á um breytingar. Stöndum með réttlætinu og neitum að taka þátt í ímyndarherferð Ísraels.

Undirritað,

Reyn Alpha Magnúsdóttir, forseti
Kolbrá Ethel Dagnýjardóttir, varaforseti
Irma Alexandra Hopkins, ritari
Aró Berg Jónasar, gjaldkeri
Ari Logn, meðstjórnandi