Komið þið sæl! Ég heiti Reyn Alpha, ég nota persónufornöfnin hún og hán og er forseti Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi. Trans Ísland var stofnað árið 2007 og er stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi og hefur í gegnum tíðina verið helsti málsvari þess. Okkar starfsemi felur hvort tveggja í sér félagslega þætti, í formi viðburða og stuðnings við samfélagið, og hagsmunabaráttu, lagalega sem aðra. Ég hef setið í stjórn félagsins síðan í mars 2022 og hef verið virkur þátttakandi í formlegum hinsegin aktívisma frá árinu 2020 og ég hef því fylgst með neikvæðri þróun samfélagslegs viðmóts hér á landi gagnvart hinsegin fólki raungerast á síðustu 3–5 árum.
Ég vil byrja á að þakka aðstandendum rannsóknarinnar kærlega fyrir þeirra vinnu og fyrir að standa fyrir þessu málþingi. Við lifum á um margt óvenjulegum tímum, svo ekki sé sterkar til orða tekið, og oft er auðvelt að týna sér í þeirri hringiðu upplýsinga sem dynja á okkur úr öllum áttum allan daginn, hvern einasta dag. Þess vegna skipta verkefni eins og þetta svo miklu máli, þau skerpa fókusinn okkar og veita okkur ákveðna innspýtingu og vald til þess að ráðast í aðgerðir.
Þessi skýrsla er afar mikilvægt verkfæri og ég hlakka til að lesa hana betur þegar tækifæri gefst. Það skiptir okkur sem vinnum í réttindabaráttunni öllu máli að hafa rannsóknir og tölfræði til að geta áttað okkur á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Skýrslan staðfestir margt af því sem við höfum vitað og bent á í fleiri ár, að hatursorðræða og haturstjáning í garð hinsegin fólks og sérstaklega trans fólks hafi aukist á síðustu árum. Skýrslan varpar einnig ljósi á afar mikilvæg smærri atriði, á borð við það að ákefð hatursorðræðu hafi aukist um 100% frá síðasta ári, en jafnframt hafi ekki borið eins mikið á umræðu í kringum hinsegin daga árið 2025 og árin á undan. Það verður fróðlegt að rýna betur í ýmsar tölur en þær gefa okkur ómetanlegar vísbendingar um það hvar við stöndum og hvert skal stefnt.
Skýrslan sýnir fram á það sem við höfum talað um lengi, að sú hatursfulla umræða sem færst hefur í aukana hér á landi á undanförnum árum hefur smitast út frá orðræðu í löndunum í kringum okkur, sem er í sjálfu sér sama orðræða og hefur verið notuð til að grafa undan réttindabaráttu og tilverurétti hinsegin fólks í fleiri áratugi. Við sjáum nákvæmlega sömu umræðupunktana, sömu þrástefin, sama hræðsluáróðurinn endurtekinn í sífellu, og margt af því sem er sagt um trans fólk í dag var sagt um samkynhneigt fólk fyrir nokkrum áratugum. Ein af hverjum tíu athugasemdum við samfélagsmiðlafærslur um hinsegin fólk á Íslandi er hatursfull og ég held að flest okkar hér inni hafi tekið vel eftir þeim. Á Norðurlöndunum er þetta hlutfall mikið hærra, eða um og yfir helmingi, og ég held að við hér inni getum öll verið sammála um að við viljum alls ekki stefna í þá átt. Þess vegna er mjög mikilvægt að við náum að kæfa þessa hatursbylgju áður en hún nær enn meira flugi, sem myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Það er nefnilega ekki svo að hatursfullar athugasemdir á netinu séu til í einhverju tómarúmi. Hatursfullar athugasemdir hafa áhrif á hvernig fólk sem les þær hugsar og stuðlar að afmennskun heilu hópanna í hugum fólks. Þegar hópar eru afmennskaðir verður auðvelt fyrir fólk að réttlæta alls konar framkomu í þeirra garð, sem leiðir að endingu til þess að hatrið færir sig af netinu og yfir í raunheima, þar sem birtingarmyndirnar eru öllu alvarlegri – áreitni, ofbeldi og jafnvel réttindamissir heilla hópa fólks.
Samfélagsmiðlafyrirtæki hafa ekki staðið sig í vörnum gegn hatursorðræðu og er staðan því miður sú í dag að stærstu miðlarnir, í eigu bandarískra stórfyrirtækja, gera hreinlega út á að miðlarnir þeirra séu notaðir til að dreifa áfram hatursorðræðu, því hún hvetur til aukinnar notkunar miðlanna. Regluverk hefur verið lítið sem ekkert og hafa því eingöngu hagsmunir fyrirtækjanna sjálfra, sem stýrast fyrst og fremst af auglýsingatekjum, ráðið för. Einnig er auðvelt að festast í kanínuholu þar sem það að skoða hatursorðræðu veldur því að meiri hatursorðræða birtist einstaklingnum, allt til að hámarka tímann sem notendur verja á miðlinum. Það er erfitt að sjá að þessi staða batni nema samfélagsmiðlar verði í auknum mæli gerðir ábyrgir fyrir því efni sem þeir hýsa.
Við höfum séð stjórnmálafólk tjá sig í auknum mæli á hatursfullan hátt á síðustu árum og það er afar mikilvægt að þeirri þróun verði ekki leyft að viðgangast. Ef hatursorðræða er í lagi á Alþingi, þá er erfitt að segja að hún sé ekki í lagi á meðal almennra borgara. Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þeirra okkar sem gegna ábyrgðarstöðum í samfélaginu. Í september samþykkti borgarstjórn ályktun um samstöðu með trans fólki og hinsegin fólki öllu, sem eru mjög skýr skilaboð og mikilvægt fordæmi sem mætti leika eftir víðar. Stuðningur skiptir nefnilega öllu máli. Ábyrgð hefðbundinna fjölmiðla er einnig mikil, en hlutverk þeirra í lýðræðissamfélagi er að stuðla að upplýstri umræðu og taka afstöðu gegn ósannindum og hatri. Viðskiptamódel netmiðla sem byggir á auglýsingatekjum og smellum hefur því miður gert að verkum að auðveldara er en nokkru sinni fyrr að birta hatursfullar greinar gagnrýnislaust, á hátt sem nær til stórs hluta þjóðarinnar, undir yfirskini þess að um „skoðun“ sé að ræða. Höfum það alveg á hreinu – það er skoðun að vilja ekki ananas á pizzu eða að finnast blár fallegri en gulur. Tilveruréttur fólks er hins vegar ekki skoðun.
Hatursorðræða í opinberum rýmum hefur verið nokkuð áberandi á síðustu árum. Við könnumst líklega flest við að hafa séð límmiða í opinberum byggingum, á ljósastaurum og víðar með hatursfullum skilaboðum sem beinast gegn jaðarhópum. Ég þarf ekki að útskýra hvernig það getur hæglega dregið úr öryggistilfinningu jaðarsetts fólks, sem er svo sannarlega til í þeim rýmum. Einnig höfum við heyrt af fleiri tilvikum þar sem sýnilega hinsegin fólk, sérstaklega hinsegin ungmenni, er áreitt úti á götu eða í rýmum á borð við strætó, þaðan sem þau eiga sér oftast litla undankomuleið. Aukin haturstjáning á netinu hefur án efa spilað stóra rullu við að venjuvæða slíka hegðun. En – eitt öflugasta vopnið okkar í þessari baráttu er stuðningur. Það er skylda þeirra okkar sem búa við meiri forréttindi að standa með jaðarhópum og veita hatrinu mótspyrnu, til dæmis í formi gagnræðu og jákvæðs sýnileika. Hatur þrífst í aðgerðaleysi og við verðum að vera óhrædd við að standa með því sem við vitum að er rétt. Við þurfum að standa með rétti alls fólks til að lifa sínu lífi, í samræmi við sitt sjálf, án ótta við hatur, ofbeldi, áreitni eða kúgun af neinu tagi. Jafnframt er mikilvægt að minna okkur á að þótt lagaleg staða hinsegin fólks sé góð á Íslandi miðað við flest önnur lönd þá þarf það ekki að fara saman við samfélagslegt samþykki. Frelsið til að vera felur ekki einungis í sér lagaleg réttindi heldur einnig samfélagslegt samþykki, og er opinber stuðningur við hinsegin fólk því eftir sem áður gríðarlega mikilvægur. Þar fyrir utan er það síður en svo raunin að full lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð og það eru enn stór skref sem er löngu orðið tímabært að séu stigin. Höldum áfram að sýna frumkvæði og forystu á hinu lagalega sviði og þrýstum áfram á réttarbætur fyrir hinsegin fólk. Þegar afturför er í tísku þá dugir kyrrstaða ekki til.
Ávarp flutt af Reyn Alpha Magnúsdóttur, forseta Trans Íslands, á málþingi sem haldið var í Safnahúsinu þann 29. október 2025 í tilefni af útgáfu skýrslunnar Öruggari hinsegin borgir.
